Sverri Guðmundssyni í Hvammi líst vel á fyrstu kynni sín af varmadælum
Varmadælan sparaði um 60% í heildar raforkukaupum fyrsta árið
Sverrir Guðmundsson bóndi í Hvammi í Norðurárdal er einn fjölmargra íbúa í dreifbýlinu sem býr á svokölluðu köldu svæði. Ekki er vitað um jarðhita í næsta nágrenni sem hagkvæmt væri að nýta til húshitunar og er búið í Hvammi því alfarið háð raforkukaupum til húshitunar. Sverrir fór fyrir nokkrum árum að kynna sér möguleika varmadæla. Las mikið um hvernig þær eru nýttar í Þýskalandi og var í framhaldi þess í sambandi við innlenda seljendur á varmadælum. „Niðurstaðan var sú að ég keypti Danfoss varmadælu frá Fríorku á Selfossi. Varmadælunni var komið upp í þvottahúsinu en í heimatúnið við bæinn lét ég plægja niðu 600 metra vatnslögn frá Seti, sem fyllt er með vatni og frostlegi. Hér er því um svokallað lokað hringrásarkerfi að ræða. Vatnið sem um lögnina fer sækir orkuna úr jarðveginum og varmadælan umbreytir orkunni í heitt vatn til húshitunar. Vatn í lögninni er 2-4 gráður þegar það kemur inn, en er um 4-6 mínusgráður þegar það fer út úr húsinu aftur. Þetta sýnir vel hversu vel varmadælan er að nýta hitamuninn og hversu vel hún getur nýtt tiltölulega lítinn jarðvarma,“ segir Sverrir.
Varmadælan í Hvammi var tekin í notkun 28. janúar 2012. Réttu ári síðar las Sverrir af rafmagnsmælinum og er niðurstaðan vissulega gleðileg. „Í stað þess að ég keypti á ári um 76.000 kW stundir af rafmagni sýndi ársnotkunin 31.455 kW stundir, eða 58% minni heildar rafmagnskaup. Gera má ráð fyrir að raforkunotkun til húshitunar lækki um 65-70%. Í framhaldinu fór ég að skoða sparnaðarspána frá Orkusetrinu miðað við þessa notkun. Áætlað er að sparnaðurinn skili mér 478.000 króna minni raforkukaupum á ári. Í stað þess að reikningurinn var um 830.000 krónur verður hann 352.000 krónur. Það munar um minna,“ segir Sverrir.
Sverrir segir að stofnkostnaður hans við kaup á varmadælunni, tengdum búnaði, vinnu við að koma lögninni í jörðina og uppsetningu búnaðarins, hafi verið um tvær milljónir króna með virðisaukaskatti. Hann segi að hægt sé að sækja um endurgreiðslu til Orkustofnunar á kostnaði og geti menn valið um að fá eingreiðslu en þá falli um leið niður öll niðurgreiðsla til húshitunar. Hann valdi hins vegar þá leið að fá hluta styrksins en heldur þá áfram að fá niðurgreiðslu á raforkukaupum til húshitunar. Fái hann því 650.000 króna styrk í stað þess að fá 1,4 milljón í eingreiðslu og enga niðurgreiðslu framvegis. „Fljótt á litið sýnis mér að samkvæmt þessu verði ég þrjú ár að greiða varmadæluna niður að fullu og eftir það er árlegur sparnaður aldrei undir hálfri milljón á ári. Að fenginni þessari reynslu fyrsta árið hér í Hvammi vil ég hiklaust mæla með því að aðrir íbúar á köldum svæðum landsins skoði þá möguleika sem felast í varmadælum. Þótt við Íslendingar séum langt á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessu, er áratuga reynsla annarra á einn veg, varmadælur spara gríðaleg orkukaup,“ segir Sverrir Guðmundsson. mm